Karellen
news

Lyngbjalli - Jólakveðja

21. 12. 2023

Við á Lyngbjalla höfum verið í sönnu jólaskapi allan desember. Börnin hafa mörg hver fylgst grant með ferðum jólasveinanna og spá sérstaklega í því hver þeirra það er sem kemur og færir þeim í skóinn dag hvern. Desember dagskráin hjá okkur hefur verið fremur hefðbundin, rauður dagur, piparkökubakstur og leiksýning í boði foreldrafélagsins.

Í upphafi þessarar viku héldum við litlu jólin okkar hérna í leikskólanum. Gleðin hófst á því að allar deildir hittust í íþróttasalnum. Þar dönsuðum við og sungum saman nokkur skemmtileg jólalög undir ukulele- og flautuleik þeirra Liv og Kristínar.Eftir stutta stund kom svo einn skrítinn og skemmtilegur jólasveinn, hann gluggagæjir, sem vildi fá að vera með í gleðinni.Sveinki fékk auðvitað að vera með og dansaði með okkur í kringum jólatréð og söng hátt og snjallt eins og jólasveinar gera. Í lokin gaf hann öllum börnunum mandarínu en bað okkur kennarana um að setja pakka í hvert hólf í fataklefunum okkar.Eftir jólaballið gaf hann sér góðan tíma til að heimsækja okkur inn á deild og spjalla. Hann kvaddi okkur svo glaður í bragði og hélt af stað á næsta jólaball.

Jólasöngstundirnar, sem hafa verið haldnar á hverjum morgni í desember, eru skemmtilegar og börnin ykkar svo glöð með þær.Þau eru svo dugleg að syngja með, jafnvel þó þau kunni alls ekki alla texana ennþá. Í staðin synga þau bara la la la með og þau eru sko ekkert feimin við það.Þá eru einnig nokkrir í hópnum sem vilja dansa líka.

Við kennarar og starfsólk óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og sjáumst svo kát og hress á nýju ári en leikskólinn er lokaður milli jóla og nýárs og opnar aftur mánudaginn 2. janúar.Þá vonumst við til að hitta ykkur öll glöð, ánægð og endurnærð eftir hátíðarnar.


© 2016 - 2024 Karellen