Leikur að læra

Þann 11. október 2019 fékk Suðurvellir viðurkenningu sem Leikur að læra skóli eftir árs innleiðingarferli.

Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum tveggja til tíu ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki, hreyfingu og skynjun á skipulagðan, líflegan og árangursríkan hátt.

Leikur að læra er hugsað út frá þörfum barna til að leika og hreyfa sig og upplifa námsefnið í gegnum mismunandi skynfæri. Með því að nota kennsluaðferðina eykst úthald og einbeiting ungra nemenda. Auðvelt er að aðlaga kennsluna að ólíkum þörfum einstaklinga með líkamlega, andlega og félagslega vellíðan barna að leiðarljósi.

Kennari sem hefur tileinkað sér kennsluhætti Leikur að læra fer að hugsa námsefnið út frá öðru sjónarhorni – frá sjónarhorni barna og þörf þeirra til að hreyfa sig. Með því að nota aðferðir Leikur að læra höfum við áhrif á andlega og líkamlega heilsu nemenda okkar til framtíðar. Þau venjast því að standa upp og hreyfa sig reglulega og sjá að það er viðurkennt að við lærum á mismunandi hátt. Leikur að læra er ekki ein bók, eitt spil eða ein námsgrein. Leikur að læra er kennslustíll sem hentar með öðrum kennsluaðferðum.

Hluti af kennsluaðferð Leikur að Læra er foreldraverkefnið Á leið inn.

Á leið inn er örverkefni sem unnið er tvo morgna í viku í samvinnu við foreldra þegar þeir koma með börniní leikskólann. Það er unnið á leið úr fataherberginu og inn á deild.

Markmið foreldraverkefnisins Á leið inn er að gera faglegt starf sýnilegra og foreldra meðvitaða um það hvaða vitsmunalegu og líkamlegu þætti er verið að vinna með og þjálfa í skólanum hverju sinni. Auk þess að efla enn frekar jákvæð samskipti milli foreldra og starfsfólks.