Karellen

Reglur um leikskólavist í Sveitarfélaginu Vogum



1.gr.

Gildisvið

Reglur þessar gilda um umsókn og innritun í leikskóla Sveitarfélagsins Voga og um gjaldtöku og innheimtu fyrir leikskóladvöl. Leikskólastjóri úthlutar leikskóladvöl í samræmi við reglur þessar.

2.gr.

Innritun í leikskóla

Sveitarfélagið Vogar starfrækir leikskóla fyrir börn frá 12 mánaða aldri og til 6 ára aldurs skv. lögum um leikskóla nr. 90, frá 12. júní 2008. Sækja má um leikskóla frá fæðingardegi barns eða strax og kennitala þess hefur verið skráð í þjóðskrá. Börn eru skráð á biðlista og innritast í leikskóla eftir kennitölu, þau elstu fyrst, að teknu tilliti til reglna um forgang (sjá nánar í gr. 3).
Skilyrði fyrir leikskóladvöl er að barn eigi lögheimili og hafi fasta búsetu í Sveitarfélaginu Vogum, en barnið getur verið á biðlista þó lögheimili sé annars staðar. Foreldrar/forsjáraðilar sem hyggjast flytja í sveitarfélagið geta sótt um leikskóladvöl en barn fær ekki úthlutað leikskólaplássi fyrr en lögheimili hefur verið flutt og skulu foreldrar/forsjáraðilar tilkynna leikskólastjóra sérstaklega um lögheimilisflutninginn.

Aðalinnritun er auglýst á heimasíðu sveitarfélagsins í febrúar ár hvert. Mikilvægt er að umsóknum sé skilað inn fyrir 1. mars árið sem óskað er eftir innritun fyrir barnið. Aðalúthlutun leikskóladvalar fyrir haustið fer fram í apríl ár hvert.
Í öllum tilvikum er það skilyrði við úthlutun að foreldrar/forsjáraðilar séu ekki í vanskilum með leikskólagjöld.
Umsóknir skulu vera skriflegar á þar til gerðu rafrænu eyðublaði sem aðgengilegt er á heimasíðu leikskóla: https://sudurvellir.leikskolinn.is/Upplysingar/lei...

3 gr.

Forgangur að leikskóla

Sveitarfélagið Vogar áskilur sér rétt til að forgangsraða börnum í leikskóla þegar taka þarf tillit til aðstæðna barna og foreldra/forsjáraðila og eða til aðstæðna í leikskólum sveitarfélagsins. Til að barn geti fallið undir skilgreiningu um forgang þarf að skila vottorði frá viðurkenndum greiningaraðilum.
Börn með samþykktan forgang raðast á biðlista eftir kennitölu, þau elstu fyrst. Í mjög brýnum undantekningatilfellum þar sem um skyndileg og alvarleg veikindi foreldra/forsjáraðila er að ræða eða í barnaverndarmálum er heimilt að víkja frá þeirri reglu að fengnu áliti félagsþjónustu.


Sækja má um forgang að leikskóla vegna:
• Vegna barna með fötlun eða þroskafrávik (vottorð frá viðurkenndum greiningaraðila skal fylgja umsókn).
• Vegna barna sem búa við erfiðleika í félagsumhverfi - barnaverndarmál (vottorð frá
félagsmálayfirvöldum skal fylgja umsókn).
• Vegna alvarlegra veikinda eða fötlunar hjá foreldrum/forráðamönnum eða systkinum
barnsins (vottorð frá lækni eða öðrum opinberum aðilum skal fylgja umsókn).
• Börn foreldra/forsjáraðila undir lögaldri (18 ára).
• Börn einstæðra foreldra með þrjú eða fleiri börn á framfæri enda sé elsta barn ekki eldra en 9 ára.
• Þríburar
• Barna starfsfólks. Starfsmenn leikskóla geta sótt um forgang, svo fremi sem leikskólastjóri mæli með forgangnum. Láti starfsmaðurinn af störfum áður en komið er að barni hans á biðlista, missir barnið forgangsrýmið.

4. gr.

Opnunartími, dvalartími og skyldur forsjáraðila

Fræðslunefnd skal gera tillögu að opnunartíma að höfðu samráði við leikskólastjóra. Bæjarstjórn ákveður opnunartíma og hámarks dvalartíma leikskóla að fengnum tillögum frá fræðslunefnd.
Leikskólinn er opinn frá 7:30 - 16:30 alla virka daga.
Hámarksdvalartími barns er 8,5 klst og skal dvalartími vera sá sami alla vikudaga innan opnunartíma leikskólans.
Foreldri/forsjáraðila er skylt að virða þann tíma sem barni er úthlutað. Miðast það við að barn komi og sé sótt á þeim tíma sem fram kemur í dvalarsamningi.
Leikskólinn eru lokaður sex daga á ári vegna skipulagsdaga. Leikskólagjöld lækka ekki vegna þessa. Hægt er að sjá skóladagatal á heimasíðu leikskólans.

Leikskólinn er lokaður á aðfangadag og gamlársdag og kemur það ekki til lækkunar á dvalargjöldum.


Leikskólinn er lokaður á milli jóla- og nýárs og greiða foreldrar ekki dvalargjöld þá daga.
Leikskólinn er lokaður vegna sumarleyfa í fimm vikur á hverju sumri frá byrjun júlí og fram yfir Verslunarmannahelgi. Gjöld eru ekki innheimt þann tíma sem leikskólinn er lokaður vegna sumarleyfa.


5. gr.

Úthlutun, dvalarsamningur og uppsögn

Sveitarfélagið Vogar innritar börn í leikskóla eftir aldri. Aðalúthlutun leikskóladvalar fer fram að vori ár hvert vegna leikskólarýma sem losna þegar elsti árgangur byrjar í grunnskóla. Aðrar úthlutanir fara fram í janúar og maí, ef leikskólarými losna vegna flutninga eða annarra ástæðna.
Þegar barni hefur verið úthlutað leikskólaplássi fær foreldri/forsjáraðili bréf í tölvupósti þar sem farið er fram á að boðið um leikskólapláss sé staðfest hjá leikskólastjóra. Ef foreldri/forsjáraðili hefur ekki staðfest tilboðið um leikskólaplássið með tölvupósti eða símtali við leikskólastjóra innan 10 virkra daga frá því að tilkynningin var send út, er litið svo á að boði um leikskóladvöl sé hafnað.
Áður en leikskóladvöl barns hefst gera viðkomandi leikskóli og foreldrar/forsjáraðilar með sér dvalarsamning. Með undirritun sinni staðfesta foreldrar/forráðamenn að þeir hafi kynnt sér gjaldskrá leikskóla og reglur þessar og skuldbinda sig til að hlíta þeim eins og þær eru á hverjum tíma.
Óski foreldrar eftir breytingum á dvalarsamningi sækja þeir um það hjá leikskólastjóra á þar til gerðum eyðublöðum. Ef unnt er að verða við óskinni taka breytingarnar gildi 1. hvers mánaðar
Uppsögn leikskóladvalar skal vera skrifleg og undirrituð af foreldri/forsjáraðila á þar til gerðu eyðublaði sem skilað er til leikskólastjóra. Uppsagnarfrestur er einn mánuður og skal miða uppsögn við 1. eða 15. hvers mánaðar.
Heimilt er að segja upp leikskóladvöl vegna vangoldinna gjalda. Verði vanskil meiri en þrír mánuðir skoðast það sem uppsögn á leikskóladvöl.

6. gr.

Gjaldskrá og innheimta

Gjaldskrá leikskóla er endurskoðuð a.m.k. einu sinni á ári og tekur bæjarstjórn ákvörðun um breytingar á henni. Gjaldskrá Sveitarfélagsins Voga er að finna á vefslóðinni: https://www.vogar.is/is/stjornsysla/gjaldskrar_og_...

Leikskólagjöld greiðast fyrirfram. Gjalddagi er 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.
Foreldrum/forsjáraðilum ber að tilkynna um breytta stöðu sem hefur áhrif á greiðslu dvalargjalds.
Ef barn er ekki sótt á tilskildum tíma greiða foreldrar viðbótargjald samkvæmt gjaldskrá. Gjaldið er innheimt eftir á með leikskólagjöldum næsta mánaðar.
Geti barn ekki sótt leikskóla vegna veikinda í fjórar vikur samfellt eða lengur geta foreldrar gegn framvísun læknisvottorðs sótt um niðurfellingu fæðiskostnaðar.


7. gr.

Lagareglur og kæruleiðir

Komi upp ágreiningur um framkvæmd þessara reglna er hægt að vísa málinu til fræðslunefndar Sveitarfélagsins Voga.
Heilsuleikskólinn Suðurvellir starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008. Ákvarðanir Sveitarfélagsins Voga um rétt einstakra barna til aðgangs að skóla og um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar er hægt að kæra til mennta- og barnamálaráðuneytis, sbr. 30. gr. laga nr. 90/2008. Ákvarðanir um gjaldtöku fyrir barn í leikskóla er hægt að kæra til mennta- og barnamálaráðuneytis, sbr. 30. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla. Aðila máls er heimilt að kæra til innviðaráðuneytis ákvarðanir sveitarfélagsins er kveða á um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti ráðuneytisins, sbr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.
Reglur þessar eru samþykktar í fræðslunefnd þann 17. apríl 2023 og staðfestar í bæjarstjórn þann 26.apríl 2023.

Við samþykkt þessara reglna falla úr gildi Verklagsreglur fyrir starfsemi leikskóla í Sveitarfélaginu Vogum sem samþykktar voru í fræðslunefnd þann 18. maí 2020.
27. apríl 2023
_____________________________________
Gunnar Axel Axelsson
bæjarstjóri


© 2016 - 2024 Karellen