Markmið Heilsuleikskólans Suðurvalla er að öll börn hvílist yfir daginn. Yngstu börnin fara í hvíld þar sem þeim er boðið upp á kodda, teppi og dýnu. Dagskipulagið gerir ráð fyrir að börnin fái tíma til þess að sofa nægju sína. Eldri börn hvílast í sögustund í rólegu og notalegu umhverfi.
Kornabörn þurfa nægan dægursvefn og flest þeirra sofa tvisvar á dag. Með aldrinum minnkar sú þörf og í kringum eins árs aldurinn dugir einn lúr á dag til að mæta svefnþörf þeirra. Ef börn eru vakin af dægursvefni áður en svefnþörf þeirra er að fullu mætt getur það valdið streitu. Uppsöfnuð streita í líkamanum veldur pirringi, hvatvísi, skorti á einbeitingu og getur jafnframt skert hæfni barnanna til náms (Greene, 2004). Við aðstæður sem þessar eru einnig meiri líkur á að börnin reyni að ná sér í stuttan lúr seinnipart dags sem getur síðan truflað gæði nætursvefnsins.
Samkvæmt rannsóknum Örnu Skúladóttur (2006) barnahjúkrunarfræðings á íslenskum börnum, spannar heildarsvefntími 0 - 9 mánaða gamalla barna 12,5 - 15,5 klst. á sólarhring og sefur þessi aldurs hópur að meðaltali 10,8 klst. að nóttu og 2,9 klst. að degi. Heildarsvefntími barna í aldursflokknum 15 - 23 mánaða mælist á bilinu 11,5 - 15,5 klst. á dag og sefur sá aldurshópur að meðaltali 11 klst. yfir nóttina og 1,8 klst. yfir daginn. Heildar svefntími 2- 4 ára barna er 10,5- 13 klst. og er meðalhlutfall dagsvefns ekki nema 0,1 klst. enda flest börn á þessum aldri hætt að sofa á daginn. Frá 5 ára aldri og fram á táningsár er heildarsvefntíminn á bilinu 9 - 11 klst. á sólarhring. Til að meta hvort barn fái nægan svefn er gott að miða við að ef barnið á auðvelt með að vakna þá hafi það sofið nóg (Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir, 2006).
Texti úr - Áherslurþættir Heilsustefnunnar gefin út af Samtökum Heilsuleikskóla 2013