Karellen
news

Leikur, snjór og þorrabót

26. 01. 2024

Snjórinn var hápunktur vikunar hjá okkur á Lyngbjalla þessa viku. Við lékum okkur á útisvæðinu, renndum okkur niður brekkuna og bjuggum til snjókarla. Þá horfðum við á snjóinn fela fyrir okkur útsýnið úr gluggunum á deildinni og í dag föstudag, var hríð og fok í útiverunni. Mörgum var ekki um sel, en aðrir hlupu um eða veltu sér uppúr snjónum og nutu sín augljóslega þar sem hlátur og gleðibros skein úr rjóðum andlitunum.

Þorrablót var haldið í leikskólanum í morgun. Börnin á Háabjalla buðu okkur á Lyngbjalla inn á sal, ásamt eldriborgurum í Vogum, og sungu fyrir okkur þrjú lög. Þá fóru börnin í litlum hópum með kennara í heimsókn inn á Háabjalla og í matsal leikskólans. Í Matsalnum var boðið upp á að smakka íslenskan þorramat. Eins og gengur og gerist voru börnin mis dugleg að smakka. Sumir vildu bara “finna lyktina” meðan aðrir fengu sér marga bita og allt þar á milli.

Þessa viku, eins og venjulega, hefur leikurinn verið í fyrirrúmi en þar hafa börnin frjáls val um leikefni, allt eftir áhugasviðum hvers og eins.

Við á Lyngbjalla óskum ykkur góðrar helgar og sjáum ykkur kát og hress á mánudag.

© 2016 - 2024 Karellen