Karellen
news

Upphaf skólaárs á Háabjalla

23. 08. 2019

Við á Háabjalla bjóðum ykkur öll, börn og forráðamenn, velkomin til samstarfs á komandi skólaári og við starfsfólkið erum spenntar að fá að vinna með börnunum við ýmis spennandi verkefni í vetur.

Við höfum notað síðustu daga til að kynnast nýjum börnum, koma okkur í gírinn, eins og sagt er, og aðlagast nýju dagskipulagi.

Við erum þegar byrjuð að rifja upp kynni okkar við hann Lubba en við á Háabjalla vinnum hörðum höndum við að kenna honum íslensku málhljóðin.Þeir foreldrar sem ekki þekkja hann, þá er Lubbi íslenskur fjárhundur sem langar ofboðslega mikið til að læra að tala. Hann ferðast um Ísland í leit að málbeinum en börnin ykkar eru svo að kenna honum hljóðin. Til að sjá meira um Lubba getið þið heimsótt heimasíðuna hanns sem er að finna á vefslóðinni lubbi.is.

Á meðan veðrið leikur við okkur reynum við að vera sem mest úti að leika en í september mun svo skipulagt hópastarf hefjast þar sem börnin vinna saman í smærri hópum í listasmiðju og vettvangsferðum með aðstoð hópstjórans síns, auk íþrótta þar sem hann Baddi okkar sprellar með þeim í allskonar leikjum og þrautabrautum.

Leikur að læra verður einnig áfram á stundarskránni hjá okkur og svo auðvitað foreldraverkefnið skemmtilega.

Í lokin viljum við minna á mikilvægi þess að merkja fatnað barnanna. Þau eru sjálf að klæða sig úr og í, sem og að ganga frá fötunum sínum. Þrátt fyrir að kennari/starfsmaður sé alltaf till staðar, þá vilja fötin stundum lenda á gólfinu og/eða sett í röng hólf.Ef fötin eru öll merkt er auðveldara fyrir alla, börn, starfsfólk og ykkur foreldra að finna út úr hvar „flökkufötin“ eiga heima. Við skulum svo öll hjálpast að að halda fataklefanum okkar snyrtilegum og passa að það séu aukaföt í körfunum og allur nauðsynlegur útiklæðnaður sé ávalt til staðar.

Mig langar sérstaklega að minnast á að í vettvangsferðum langar okkur stundum að fara í fjöruna, en þá þurfa helst allir að vera með stígvélin sín þó svo að sólin skýni og léttir skór dugi á útisvæðinu.

© 2016 - 2024 Karellen