Karellen
news

Jólatréð í Aragerði skreytt

02. 12. 2021

Síðustu dagar á Háabjalla hafa farið í að útbúa skraut á jólatréð í Aragerði. Hefð er fyrir því að elstu börnin í leikskólanum sjái um að skreyta tréð.

Börnin hafa verið mjög dugleg við vinnuna. Við bjuggum til deig úr kartöflumjöli, matarsóda og vatni og stimpluðum á það með piparkökuformum. Kökurnar þornuðu svo áður en þeim var dýft í fljótandi vax. Við pössum upp á náttúruna í þessu verkefni - það er allt í lagi þó kökurnar detti af og veðrist. Öll efnin sem við notuðum eru umhverfisvæn og eyðast á mislöngum tíma úti í náttúrunni.

Það voru svo stolt og glöð börn sem örkuðu út í myrkrið með skrautið sitt í morgun. Í Aragerði var vel tekið á móti okkur. Allir fengu heitt kakó og piparköku í boði sveitarfélagsins og svo var tekið til við að skreyta. Jólasveinarnir, þeir Hurðaskellir og Giljagaur komu og sungu og dönsuðu í kringum jólatréð með okkur við mikla hrifningu viðstaddra.

© 2016 - 2024 Karellen