Karellen
news

Í vikulokin...

21. 09. 2018

Hópastarfið er komið á fulla ferð hjá okkur á Háabjalla. Í skipulögðu hópastarfiförum við í vettvangsferðir, listasmiðju og íþróttir. Stundartöflu vegna hópastarfsins er hægt að skoða í fataherberginu okkar, en fljótlega munum við svo setja hana inn á heimasíðuna okkar.

Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru þegar rauði og græni hópur fóru í vettvangsferð í liðinni viku. Við fórum og skoðuðum berjasprettuna, sem var nú ekki upp á marga fiska.Börnin létu það samt ekkert á sig fá.Einhver þeirra fundu nokkur ber og urðu hæst ánægð með fundinn, önnur skoðuðu bara berjalyngið eða æfðu sig að ganga á þúfunum.Á heimleiðinni kíktum við svo við hjá hestum sem voru í girðingu þarna rétt hjá.

Á síðast liðnum vikum hefur gripið um sig Lubba æði og allir leggja sig fram við að kenna honum að tala, hvort sem það er í skipulögðum samverustundum fyrir hádegismat eða í vali eftir útiveru.Einnig eiga börnin það til að bresta í söng hvar sem er og/eða hvenær sem er.


Fleiri myndir frá starfi og leik á deildinni er svo að finna inni á foreldrasvæðinu okkar. Við hvetjum ykkur foreldra að setjast niður með börnunum ykkar og ræða við þau um myndirnar og/eða fá þau til að segja ykkur frá því sem er að gerast á myndunum.

Í lokin viljum við svo minna á foreldrafundinn á þriðjudaginn þann 25. september og hvetja alla foreldra til að mæta.Þar verður kynning á kennsluaðferðinni Leikur að læra sem við ætlum að nota mikið í allskonar vinnu með börnunum, auk þess sem við munum í framtíðinni setja upp verkefni þar sem þið foreldrarnir fáið að spreita ykkur með aðstoð barnanna.

© 2016 - 2024 Karellen