Karellen
news

Könnunarleikur á Lágabjalla

14. 02. 2022

Könnunarleikur er fastur liður í dagskipulagi Lágabjalla. Markmið aðferðarinnar er að börnin uppgötvi hlutina og möguleika þeirra með snertingu, lykt, bragði, heyrn og sjón. Í könnunarleiknum eru öll þessi skilningarvit örvuð sem og gróf- og fínhreyfingar. Hverju barni gefst tækifæri á að uppgötva efniviðinn og umhverfi sitt á sínum forsendum.

Efniviðurinn í könnunarleiknum er ekki leikföng í eiginlegum skilningi, heldur verðlaust efni. Hér getur verið um að ræða dósalok, mismunandi plastílát, plaströr, pappírshólkar, keðjubúta, lykla, tvinnakefli, efnisbúta og ýmislegt annað sem eru engu að síður jafn spennandi leikföng og þau hefðbundnu.

Hlutverk starfsfólksins er aðallega að nýta tímann til að gera skráningar á nálgun og rannsóknum barnanna auk þess að læra af börnunum. Í könnunarleik gefst oft dýrmætt tækifæri til að setja sig í stellingar rannsakandans en ekki þess sem leiðir. Næmir og athugulir leikskólakennarar fá í gegnum skráningar innsýn í hugarheim barna og einstakt tækifæri til að kynnast þeim. Því hvert og eitt barn nálgast og leikur með efniviðinn á sinn hátt.

Tíminn sem er notaður í tiltekt er ekki síður mikilvægur en leikurinn sjálfur. Í gegnum tiltekt læra börnin t.d. að para saman og flokka en hvorutveggja er undirstaða stærðfræðináms.

Með þolinmæði starfsmannsins og rólegu andrúmslofti skilja jafnvel yngstu börnin hvað þarf að gera. Það getur verið mjög gaman að taka saman og markar ákveðin verklok bæði hjá fullorðnum og börnum. Meðan á leiknum stendur talar hinn fullorðni ekki að fyrra bragði nema tilefni gefist s.s. til að skakka leikinn eða örva einstakling til dáða, en í tiltektinni nefnir hann hlutina sem hann vill að barnið taki saman og eykur á þann hátt við orðaforða og málskilning barnsins. Í tiltekt fer þannig fram mikil málörvun þar sem börnin læra að tengja orð við hluti og aðgerðir og æfa hugtakaskilning. Í leiknum hafa börnin kynnst eðli hvers hlutar í gegnum skilningarvitin þannig að nafn hlutarins fær raunverulega merkingu.


© 2016 - 2024 Karellen