Karellen
news

Vikulok á Lyngbjalla - Afmæli leikskólans, deildarheimsóknir og uppskeruhátíð

13. 10. 2023

Það hefur nú aldeilis verið mikið um að vera hjá okkur í líðandi viku. Strax á mánudag var haldið upp á 32 ára afmæli leikskólans. Leikskólanum til heiðurs komu allar deildar saman í íþróttasalnum þar sem við sungum saman nokkur lög þar meðtalið afmælissönginn. Í lokin fengu svo allir heimatilbúinn berja- og ávaxtaís við mikla ánægju allra viðstaddra.

Á þriðjudeginum var svo komið að deildarheimsóknum sem er vinsæll og skemmtilegur viðburður. Þá fara börn í litlum hópum, ásamt kennara, í heimsóknir á aðrar deildar leikskólans. Flestum finnst þetta ákaflega spennandi viðburður þar sem börnin fá tækifæri til að hitta önnur börn og einnig til að leika með leikföng sem fyrirfinnast á hinum deildunum sem geta verið ólík milli deilda. Þá er auðvitað spennandi að fá að leika í nýju umhverfi eða að heimsækja gömlu deildina sína.

Yngstu börnin á deildinni, eða þau sem voru á Lágabjalla sl. vor, auk elstu barnanna af Lágabjalla héldu uppskeruhátíð í matsal leikskólans á miðvikudag. Í febrúar sáðu þessi börn fræjum úr paprikku og hafa, síðan þá, verið dugleg að fylgjast með og vökva. Plönturnar hafa vaxið og dafnað og á þeim eru nokkrar paprikkur sem hafa verið að roðna í gluggum matsalarins okkar. Börnin komu saman í matsalnum og Hulda, deildarstjóri á Lágabjalla sýndi okkur ljósmyndir og rifjaði upp ferlið. Þá var loks komið að því að taka paprikkur af plöntunni og smakka. Þær paprikkur sem eftur urðu á plöntunum verða síðan notaðar í salat með hádegismatnum.

© 2016 - 2024 Karellen