Karellen
news

Vikan á Lyngbjalla

29. 09. 2023

Þessi vika sem nú er að líða undir lok hefur gengið vel hjá okkur á Lyngbjalla og ýmislegt verið brallað.Nú líður senn að því að við kennarar förum að skrá í heilsubækur barnanna.Því tengjast ýmiskonar verkefni þar sem við horfum t.d. eftir færni og áhuga barnsins. Eitt af því sem við horfum á er færni með skæri og því hafa verkefni í listasmiðju verið tileinkuð klippimyndum. Reyndar byrjuðu einhverjir hópar slíka vinnu í síðustu viku og einhverjir vildu halda áfram með þá vinnu á meðan aðrir unnu annarskonar verkefni.

Það að klippa er nefnilega þolinmæðis vinna, einkum og sér í lagi þegar maður er að byrja að æfa sig. Þá er of voða gott að æfa sig bara í mjög stuttan tíma í einu og gera það bara oftar. Þess vegna var einnig boðið upp á að nýta annan efnivið í klippimyndina sína, efnivið sem þurfti kannski ekki að klippa niður.

Á þriðjudag var menningardagur í leikskólanum. Þetta er í fyrsta skipti sem við höldum slíkan dag og í ár var dagurinn tileinkaður heimamenningu barnanna. Evrópski tungumáladagurinn var einnig á þriðjudag en hið almenna markmið hans er að vekja athygli á ríkulegum tungumála- og menningarlegum fjölbreytileika Evrópu, sem þarf að hvetja til og viðhalda, en einnig að bæta úrval tungumála sem fólk lærir á lífsleiðinni.

Nú er september mánuður senn á enda og október tekur við. Það þíðir að þá koma einning nýjar áherslur í námi. Þær munu koma inn á heimasíðu Lyngbjalla eftir helgi og í tölvupósti til ykkar foreldra og forráðamanna.

Góða helgi allir og sjáumst hress og kát á mánudag!

© 2016 - 2024 Karellen