Karellen
news

Útskrift elstu barnanna

28. 05. 2020

Nú er runninn upp árstími útskrifta úr skólum. Hér í leikskólanum er það árvisst að við bjóðum útskriftarhópnum okkar í skemmtilega ferð áður en við útskrifum þau. Á þriðjudaginn var lagt af stað með rútu til Sandgerðis þar sem hópurinn heimsótti Þekkingarsetur Suðurnesja. Þar veiddu börnin lífverur í tjörnum við setrið og svo fóru þau með þær inn og skoðuðu í víðsjá og einnig voru þar til sýnis ýmis sjávardýr, fuglar, egg og fleira úr náttúrunni sem börnunum fannst spennandi. Í hádeginu var farið út að borða á veitingahúsinu Langbest í Ásbrú. Daginn endaði hópurinn svo í skóginum við Háabjalla þar sem skógrægtarfélagið Skógfell býður börnunum að koma og gróðursetja tré í lund leikskólans. Ferðin gekk mjög vel og allir voru glaðir og kátir þegar komið var aftur í leikskólann í lok dags.

Á miðvikudag var svo útskrifað með pompi og pragt. Foreldrum var boðið til athafnarinnar og börnin leyst út með gjöfum bæði frá leikskólanum og foreldrafélagi leikskólans. Elstu nemendur skólans eru í kór allan síðasta veturinn af skólagöngunni og söng kórinn nokkur lög fyrir viðstadda. Við viljum þakka börnum og foreldrum þeirra ánægjuleg kynni og gott samstarf á liðnum árum og óskum þeim góðs gengis á nýju skólastigi næsta haust.

© 2016 - 2024 Karellen